Brennandi spurningar og svör
Með Dögg Stefáns
Lífsþjálfi með sálfræðimenntun sem hefur ástríðu fyrir því að hjálpa konum að umbreyta lífi sínu.
Aðsend spurning frá lesenda
Á sínum tíma var móðir mín mikið veik og öll mín orka fór í hana. Dóttir mín þá unglingur fór að dufla við eiturlyf en hætti því fljótlega. Að hennar sögn var það mín sök og hún upplifir að allt slæmt sem hún verður fyrir stafi af framkomu minni á þessum tíma. Hef tekið fulla ábyrgð á því að hafa ekki getað sinnt henni að fullu og gat bara ekki meira á þessum tíma geðveik móðir og dóttir í sjálfsskaða. Spurningin er því getur verið að það sé endalaust á mína ábyrgð? Ég sjálf er alin upp í og taldi mig hafa alið börnin upp í að ákvarðanir væru þínar og ekki öðrum um að kenna. Samt hef ég tekið ábyrgðina og hún étið mig síðustu 20 árin.
Kærar þakkir - Nafnlaus
Svar
Að bera ábyrgð snýst ekki um að kenna einhverjum um. Ef ábyrgðin er að éta mann þá þarf að skoða hvað er þar að baki. Þú getur ekki stjórnað upplifun, hegðun og viðbrögðum dóttur þinnar í dag en þú getur stjórnað því hvernig þú hugsar um fortíðina ykkar og hver þú vilt vera í dag. Þegar þú berð ábyrgð skiptir miklu máli að tileinka þér sjálfsmildi og skilning á sama tíma. Málið er með alla gagnrýni að hún meiðir ekki nema það sé eitthvað innra með okkur sem trúir alla vega einhverjum parti af henni.
Í þessu tilfelli myndi ég hvetja þig til að byrja á að fara inn á við og spyrja sjálfa þig góðra spurninga sem hjálpa þér að afhjúpa og búa til meðvitund um hvað þú ert raunverulega að bera innra með þér. Sjá hvort þú sért fyllilega búin að gera upp þennan tíma, með sjálfsást og skilningi á þeirri stöðu sem þú varst í. Sjáðu hvort það sé eitthvað þarna sem þú átt eftir að gera upp við sjálfa þig. Veldu þér fallegar hugsanir um sjálfa þig sem var að gera sítt besta í erfiðum aðstæðum. Ef þú ert með einhverjar óuppgerðar tilfinningar frá þessum tíma er mikilvægt að samþykkja þær og skilja hvaðan þær koma (frá sögunni sem þú ert að segja þér) og æfa þig í að sleppa þeim.
Stjórnaðu sögunni sem þú segir þér um fortíðina af því að annars stjórnar sagan þér. Fortíðin þín er ekkert annað í dag en sú saga sem þú segir þér um hana. Veldu þér góðar og valdeflandi hugsanir um fortíðina þína og sjáðu hvernig mótlætið gerði þig að þeirri konu sem þú ert í dag. Mundu að það er ekki þitt breyta upplifun dóttur þinnar, hún ein getur gert það en þú getur ákveðið hver þú vilt vera gagnvart henni. Gerðu upp fortíðarsöguna þína, elsku sál, og horfðu fram á veginn og skapaðu þér bjarta framtíðarsýn. Ekki dvelja í fortíðinni, hún er liðin.
Með bestu kveðju
Dögg
*Lítil áminning- með kærleika
Svörin okkar eru veitt af innilegu áhuga á þínum vexti og vellíðan. Þau eru ætluð sem innblástur og speglun, en ekki sem staðgengill sérfræðiráðgjafar. Þú ert alltaf þitt eigið besta afl – við treystum á að þú notir innsýnina með skynsemi og leitar faglegrar aðstoðar ef þörf krefur.
Ert þú með spurningu fyrir Dögg?
Lífsþálfun í "beinni"
Sendu inn hér (nafnlaust ef þú vilt) og ég svara vikulega